Innlent

Höfðu ekki lagaheimildir til að framselja vatnsréttindi

Urriðafoss í neðri hluta Þjórsár.
Urriðafoss í neðri hluta Þjórsár.

Ráðherrar í ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins höfðu ekki lagaheimild til þess að framselja vatnsréttindi í neðri hluta Þjórsár til Landsvirkjunar þremur dögum fyrir þingkosningar í vor. Að þessu hefur Ríkisendurskoðun komist eftir að hafa farið fyrir málið.

Í tilkynningu frá þingflokki Vinstri - grænna segir að flokkurinn hafi andmælt ráðstöfun ráðherranna en hún hafi verið í þágu fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda í ánni. Undir samninginn skrifuðu fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og landbúnaðarráðherra.

Eftir að hafa farið yfir málið hefu Ríkisendurskoðun komist að því að það hefði þurfi að afla sérstakrar lagaheimilda til þess að ráðstafa vatnsréttindunum frá ríki til Landsvirkjunar. Því hefði verið rétt að gera samkomulagið með fyrirvara um samþykki Alþingis. Lítur Ríkisendurskoðun svo á að meðan sérstök lagaheimild liggi ekki fyrir sé samkomulag ríkis og Landsvirkjunar ekki bindandi fyrir ríkissjóð.

Um andmæli ráðuneytanna vegna ráðstöfunar eignaréttindanna segir Ríkisendurskoðun að röksemdir þeirra dugi ekki „til að hagga þeirri niðurstöðu stofnunarinnar að samkomulagið feli í sér ráðstöfun á eignarréttindum ríkisins, sem klárlega falli undir ákvæði 29. greinar fjárreiðulaga, þó tímabundin séu."

Vinstri - græn segja að niðurstaða Ríkisendurskoðunar hljóti að teljast áfellisdómur yfir vinnubrögðum stjórnvalda. ,,Vinstrihreyfingin grænt framboð mun fara fram á að þegar í stað verði fallið frá fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum enda eru ekki fyrir þeim lagaheimildir. Þingflokkur VG hefur þegar óskað eftir að fram fari umræða um þetta efni á Alþingi," segir að endingu í tilkynningu Vinstri - grænna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×