Innlent

Friður að komast á innan Framhaldsskólans á Húsavík

Friður er að skapast innan Framhaldsskólans á Húsavík. Skólameistari og kennarar hafa tekið höndum saman um að leysa ágreining um skólastarf.

Fréttastofa sagði frá því á dögunum að félag kennara við Framhaldsskólann á Húsavík sendi nýverið opinbera kvörtun til menntamálaráðuneytisins. Kennarar gerðu athugasemdir við stjórnsýslu skólameistara, Guðmundar Birkis Þorkelssonar, en ráðuneytið sá enga ástæðu til að hafa afskipti af málinu.

Áður höfðu nemendur komið óformlega saman og lýst stuðningi við kennara, meðal annars vegna þess að þeir töldu að það fé sem ætti að fara í félagsstarf nemenda hefði farið í listaverkakaup.

En nú hefur orðið vending í málinu. Í sameiginlegri yfirlýsingu sem kennarar og skólameistari hafa sent frá sér er fyrirsögnin Stjórnendur og kennarar taka höndum saman. Í yfirlýsingunni er ágreiningur kennara og skólastjórnenda harmaður og því lýst yfir að aðilar máls hafi nú tekið höndum saman um að leysa ágreininginn og skapa sátt um framtíðarskólastarf.

Í yfirlýsingu sem Björgvin Leifsson áfangastjóri og Gunnar Baldursson aðstoðarskólameistari sendu frá sér og birtist í héraðsfréttablaðinu Skarpi sem gefið er út á Húsavík segir meðal annars: „Þetta upphlaup nokkurra kennara við FSH hefur valdið skólanum ómældu tjóni. Það lítur út fyrir að tilgangurinn með þessari ályktun gæti verið ósk einstakra kennara að reyna að bola skólameistara úr starfi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×