Innlent

Gjaldeyristekjur af ferðamönnum aukast um 15 prósent

MYND/Teitur

Gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum jukust um 15 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins samkvæmt upplýsingum Samtaka ferðaþjónustunnar.

Í frétt á vef samtakanna kemur fram að tekjurnar hafi numið nærri 45 milljörðum króna frá janúar til septemberloka í ár en þær voru tæpir 39 milljarðar króna á sama tímabili í fyrra.

Segja samtökin að mestu muni um neyslu ferðamanna innanlands en hún hefur aukist um fjórðung á meðan fargjaldatekjur drógust saman um þrjú prósent á milli ára. Vísa Samtökin í tölur Seðlabanka Íslands máli sínu til stuðnings.

Þá er bent á ferðamönnum sem fóru um Leifsstöð hafi fjölgað um 16,5 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Er ágæt fjölgun frá flestum mörkuðum en mest frá Bretlandi og Skandinavíu.

Þegar aðeins er horft til þriðja ársfjórðungs þessa árs og hann borinn saman við sama ársfjórðung í fyrra kemur í ljós að neysla erlendra ferðamanna hefur aukist um 20 prósent á milli ára en fargjaldatekjur drógust hins vegar saman um níu prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×