Innlent

Óhjákvæmilegt að fella niður veggjald í Hvalfjarðargöngum

Oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi segir óhjákvæmilegt veggjald í Hvalfjarðargöngunum verði fellt niður. Að öðrum kosti verði að taka upp gjöld á öðrum stöðum á þjóðveginum. Samgönguráðherra segir málið ekki á dagskrá.

Fyrirtækið Spölur hf. rekur Hvalfjarðargöngin og hefur, í samræmi við samning við ríkið, heimild til að innheimta veggjald af þeirri umferð sem fer um göngin til ársins 2018. Árlega innheimtir fyrirtækið um einn milljarð fyrir utan virðisaukarskatt. Eitt af helstu stefnumálum Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi fyrir síðustu kosningar var að gjaldið yrði fellt niður.

Kristján L. Möller, samgönguráðherra, hefur hins vegar þvert á stefnu flokksfélaga sinna í Norðvesturkjördæmi lýst því yfir málið verði ekki sett í forgang innan ráðuneytisins. Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 vildi hann þó ekki útiloka að málið verði tekið til skoðunar á þessu kjörtímabili en benti á að í samgönguáætlun sé ekki gert ráð fyrir að gjaldið verði fellt niður.

Guðbjartur Hannesson, oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í morgun óhjákvæmilegt að gjaldið verði tekið til endurskoðunar enda sé það ósanngjarnt að hans mati. Hann bendir á að hvergi á þjóðveginum sé tekið sérstakt veggjald og því stríði það gegn jafnræðisreglu að rukka sérstaklega fyrir umferð um göngin.

Sagði hann ennfremur að það yrðu mikil vonbrigði ef ríkisstjórnin ákveði að breyta engu í þessu máli og að sú niðurstaði muni kalla á að rukkað verði fyrir umferð á fleiri stöðum á þjóðveginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×