Innlent

Ný lögreglustöð verður reist

Björn Bjarnason vill reisa nýja lögreglustöð í stað þeirrar sem stendur á Hverfisgötu.
Björn Bjarnason vill reisa nýja lögreglustöð í stað þeirrar sem stendur á Hverfisgötu.

Til stendur að reisa nýja lögreglustöð í stað þeirrar sem stendur á Hverfisgötu. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra gerir þetta að umtalsefni á vefsíðu sinni í dag. „Á mínu borði er næsta stórverkefni að finna stað fyrir nýja lögreglustöð á höfuðborgarsvæðinu og vinna að því, að hafist verði handa við að reisa hana," segir Björn.

„Þetta mál hefur verið til athugunar, en engin lóð er í takinu," svaraði Björn þegar Vísir spurði hann út í málið. Hann segir að engar tímasetningar hafi verið ákveðnar, hvorki um það hvenær bygging ætti að hefjast né um það hvenær vonast væri til þess að nýja lögreglustöðin yrði opnuð.

En húsakynni lögreglunnar eru ekki það sem almennum lögreglumönnum er efst í huga þessa dagana. Talsverðs kurrs hefur gætt á meðal þeirra undanfarna daga vegna óánægju með mikið álag og undirmönnun hjá lögreglunni. Var fundað vegna þess í gær. Stefán Eiríksson lögreglustjóri sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að menn ýktu ástandið. Von væri á fleiri menntuðum lögreglumönnum til starfa og að starfsmannavelta væri ekki mikil innan embættisins.

Dómsmálaráðherra segir að vel hafi tekist til við sameiningu löggæslu á höfuðborgarsvæðinu undir öruggri stjórn Stefáns Eiríkssonar og hans manna. „Fyrsta heila ár sameiningar er að baki og margt gott hefur áunnist. Enn má gera betur eins og fram kom á fundi lögreglumannanna," segir Björn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×