Fótbolti

Kaka, Messi og Ronaldo tilefndir sem leikmaður ársins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabio Cannavaro hlaut viðurkenninguna í fyrra.
Fabio Cannavaro hlaut viðurkenninguna í fyrra. Nordic Photos / Getty Images

Brasilíumaðurinn Kaka, Lionel Messi frá Argentínu og Portúgalinn Cristiano Ronaldo hafa verið tilefndir sem leikmaður ársins af Alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA.

Þetta er í fyrsta sinn sem nokkur þeirra er tilnefndur til verðlaunanna.

Þeir sem fá atkvæðisrétt í kjörinu eru landsliðsþjálfarar og -fyriliðar. Enginn þeirra sem var tilnefndur í fyrra var meðal þeirra þriggja efstu í kjörinu nú. Auk Cannavaro voru það Zinedine Zidane og Ronaldinho.

Undanfarin sex ár hafa leikmenn úr spænsku úrvalsdeildinni hlotið viðurkenninguna en í ár þykir Kaka vera líklegastur.

Hann var lykilmaður í liði AC Milan sem vann Meistaradeild Evrópu í vor.

Í kvennaflokki var leikmaður ársins í fyrra, Marta frá Brasilíu, tilnefnd ásamt landa sínum Cristiane og Birgit Prinz frá Þýskalandi sem hefur þrívegis hlotið útnefninguna.

Kjörið verður kunngjört í Sviss þann 17. desember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×