Innlent

Lögreglan í höfuðborginni fékk 90 beiðnir um aðstoð

Mikið tjón varð í ofsaveðri sem gekk yfir suðvestanvert landið í gærkvöldi og fram yfir miðnætti þótt hvergi yrði stórtjón á einum stað. Lögreglan í höfuðborginni fékk 90 beiðnir um aðstoð.

Fjöldi björgunarsveitarmanna var kallaður út á svæðinu frá Suðurnesjum og upp í Borgarfjörð til að aðstoða vegna fjúkandi hluta. Járnplötur losnuðu af husþökum, garðhýsi sprungu, trampólín fuku, vinnupallar við nýbyggingar í efri byggðum á höfuðborgarsvæðinu hrundu, flaggstangir brotnuðu, tré féllu, bílar fuku til og aðrir urðu fyrir fjúkandi hlutum, hjólhýsi splundruðust, svalahurðir og gluggar fuku upp og bátar losnuðu í höfnum, svo það helsta sé nefnt.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk hátt í 90 tilkynningar um fok og álíka margar beiðnir um aðstoð. Þá var aftakaveður undir Hafnarfjalli þar sem vindur fór uppundir 60 metra á sekúndu í snörpustu kviðunum og var veginum lokað.

Í Borgarnesi fuku vinnupallar og plötur af nýbyggingum. Lausir munir fuku líka við nýbyggingu í Vestmannaeyjum og Herjólfi seinkaði um tæpar fjórar klkukkustundir vegna veðurs. Þrátt fyrir allt er ekki vitað til þess að neinn hafi sakað og laust upp úr klukkan eitt datt allt í dúna logn á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×