Innlent

Stór lýsingarorð breyta ekki neinu

Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Austurlands, var ómyrkur í máli um ástandið á Eskifirði þegar Vísir ræddi við hann í dag. Hann sagði ástandið hörmulegt og þótt þetta hefði legið í loftinu þá væri það alltaf jafn sárt fyrir fólk.

„Stór lýsingaorð breyta ekki neinu. Við vorum þarna hjá Eskju í gær, ég og formaðurinn. Við töluðum við fólkið í tvo tíma á kaffistofunni og það var misjafnt hljóðið í fólki. Einhverjir eru þegar farnir, aðrir eru með atvinnutilboð en það er kannski verst með fólkið sem hefur unnið í fiskvinnslunni frá 16 ára aldri og verið allan sinn starfsaldur hjá fyrirtækinu,“ segir Sverrir Mar sem bendir þó á að atvinnuástandið sé með betsa móti á Mið Austurlandi nú um stundir.

Hann segir að félagið muni reyna að hjálpa til sem mest og bjóða upp á endurþjálfun og námskeið. „Það er hins vegar ljóst að við getum ekki komið með fiskvinnslu á staðinn,“ segir Sverrir.

Sverrir viðurkennir að þetta ástand hafi kannski ekki komið sér á óvart. „Það gerðu sér allir grein fyrir því að Austfirðir eru sjávarútvegsbyggð og að skerðing á kvóta myndi koma hart niður á fyrirtækjum og starfsfólki þess. Ég hef hins vegar ekki heyrt neitt um mótvægisðagerðir ríkisstjórnarinnar nema ef vera skyldi veglagning yfir Öxi. Okkar fólk, sem unnið hefur í fiskvinnslu fer hins vegr ekki að keyra jarðýtur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×