Innlent

Stjórnarsáttmáli útilokar ekki aðildarumsókn

Þórir Guðmundsson skrifar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra bendir á það í viðtali við Stöð tvö að ekki sé kveðið upp úr um það í stjórnarsáttmálanum að ekki verði sótt um aðild að Evrópusambandinu á kjörtímabilinu.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ræddi í nýlegri ferð til höfuðstöðva Evróupsambandsins í Brussel við bæði Joe Borg framkvæmdastjóra sjávarútvegsmála og Olli Rehn framkvæmdastjóra stækkunarmála. Báðir eru lykilmenn ef sú staða kemur upp að Íslendingar fari að sýna áhuga á aðild.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir í viðtali við Stöð tvo að Samfylkingin hafi aðild að Evrópusambandinu á stefnuskrá sinni. Aðildarumsókn sé hins vegar ekki uppi á borðinu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en hins vegar hefur ríkisstjórnin "heldur ekki tekið eindregna afstöðu gegn því."

Olli Rehn, sem Ingibjörg Sólrún ræddi við í Brussel, sagði í samtali við þýskt dagblað í sumar að umsókn frá Íslandi yrði afgreidd með hraði, enda væri hægt að ljúka samningaviðræðum á stuttum tíma. Og með ummælum sínum nú bendir utanríkisráðherra á að stjórnarsáttmálinn útiloki ekkert.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×