Innlent

Gæsluvellir komi betur til móts við þarfir barnafjölskyldna

MYND/Anton

Til stendur að endurskoða hlutverk gæsluvallanna í borginni með það fyrir augum að koma betur til móts við þarfir barnafjölskyldna. Að sögn formanns leikskólaráðs er meðal annars horft til Svíþjóðar til fyrirmyndar í þessum efnum, þar sem gæslan býðst fyrir eldri börn en leikskólakrakka.

Samþykkt var í leikskólaráði að skipa starfshóp sem ætlað er að kanna hvernig gæsluvellirnir eru nýttir núna og hver kostnaðurinn við reksturinn sé. Jafnframt á hópurinn að skila tillögum um það hvernig vellirnir eigi að vera í framtíðinni þannig að þeir nýtist fjölskyldum betur.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður leikskólaráðs, bendir á að gæsluvellir gegni ekki sama hlutverki og fyrr á árum því flest börn séu nú í leikskólum. Hún segir að leikvellir víða í borginni séu lítið notaðir og vægi gæsluvalla fari minnkandi en hins vegar séu lóðir leikskóla mikið nýttar. „Við ætlum að horfa á aðra þjónustu og það er ekkert launungarmál að ég horfi til Svíþjóðar þar sem gæsluvellir þjóna mjög mörgum aldursstigum," segir Þorbjörg Helga en hér á landi hefur nær eingöngu verið boðið upp á gæslu fyrir 6 ára börn og yngri.

Þorbjörg segir enn fremur að á gæsluvöllum í Svíþjóð er boðið upp á gæslu á tilteknum tímum en jafnframt séu vellirnir fjölskylduvænir þannig að fjölskyldur geti komið þangað saman með nesti og notið útiveru. Hún segist telja að nýtingin verði aðallega eftir vinnu og um helgar.

Starfshópur borgarinnar fær tvo til þrjá mánuði til að skila tillögum en í honum eiga sæti fulltrúar ÍTR, umhverfissviðs og leikskólasviðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×