Innlent

Hefur ekki hitt dóttur sína í fjóra mánuði

Antonio Gomes Bento með dóttur sína í fanginu.
Antonio Gomes Bento með dóttur sína í fanginu.

Á dögunum sagði Vísir sögu Ásthildar Bjartar Pedersen sem sagði farir sínar ekki sléttar af samskiptum sínum við heilbrigðisyfirvöld.

Hún er nýflutt til landsins frá Frakklandi með 17 mánaða gamla dóttur sína og sagðist hún alls staðar koma að lokuðum dyrum því hún njóti ekki fullra réttinda hér á landi sökum þess hve stutt er síðan hún fluttist til landsins.

Í viðtalinu sagðist hún hafa neyðst til að flýja Frakkland undan ofbeldi sambýlismanns síns. Maðurinn, Antonio Gomes Bento, hafði samband við Vísi og lýsti sinni hlið málsins. Hann segist ekki hafa séð dóttur sína í fjóra mánuði og að Ásthildur neiti að semja við hann um umgengnisrétt.

Antonio segir fjarri sanni að hann hafi beitt Ásthildi ofbeldi. Hún hafi hins vegar flutt frá honum þegar hann lenti í fjárhagserfiðleikum en hann rak fyrirtæki í París.

Þau kynntust í Portúgal en bjuggu saman í fimm ár í París en giftust aldrei. Hann segir að í allan þann tíma hafi Ásthildur aldrei sakað sig um ofbeldi. Einu sinni hafi þó lögregla verið kölluð til vegan rifrildis þeirra í millum en að það hafi verið fyrir mörgum árum.

 

 

Maðurinn hefur sett sig í samband við dómsmálaráðuneytið og franska sendiráðið hér á landi til þess að leita aðstoðar í málinu en hefur enn engin viðbrögð fengið. Antonio segir að Ásthildur segi að eina leiðin fyrir hann til þess að hitta dóttur sína sé að hann komi hingað til lands. Hann segir hins vegar að hann sé ekki efnaður maður og að hann hafi því engin ráð á að ferðast reglulega til Íslands með tilheyrandi kostnaði. Hann leggur áherslu á að hann sé ekki að krefjast forræðis yfir stúlkunni, hann vilji einfaldlega fá tækifæri til þess að hitta hana reglulega.

 

 

Þau Antonio og Ásthildur skildu í góðu að því er Antonio segir og hann grunaði aldrei að hún ætlaði sér að flytja til Íslands. Það hafi hún hins vegar gert án hans vitneskju og áður en dómari í Frakklandi gat farið yfir mál þeirra og úrskurðað um sameiginlegt forræði yfir stúlkunni.

 

 

Að hans sögn hefur Ásthildur nú krafist þess að hann borgi meðlag með stúlkunni. Hann segist fús til þess að hann setur fram kröfur á móti um að hann fái dóttur sína í heimsókn til Frakklands af og til. Hann bendir á að það hafi verið Ásthildur sem hafi ákveðið að flytjast hingað og því sé það ekki sanngjarnt að allur ferðakostnaður lendi á honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×