Innlent

Blaðamannafélagið fordæmir tilraunir til ritskoðunar

Arna Schram, formaður Blaðamannafélags Íslands
Arna Schram, formaður Blaðamannafélags Íslands

Í tilkynningu frá Blaðamannafélagi Íslands eru allar tilraunir til ritskoðunar af hálfu verslana og eigenda þeirra fordæmdar. Tilkynningin kemur í kjölfar þess að Jón Trausti Reynisson ritstjóri tímaritsins Ísafoldar hélt því fram að ákvörðun um að hætta að selja blaðið í verslunum Kaupáss hafi verið tekin í kjölfar umfjöllunar blaðsins um bæjarstjóra Kópavogs.

 

Jón Trausti segir að ákvörðunin brjóti í bága við gildandi dreifingarsamning milli Kaupáss og forsvarsmanna Birtings sem gefur út tímaritið.

 

Í tilkynningu frá Blaðamannafélaginu segir að félagið hafi skrifað Jóni Helga Guðmundssyni, forstjóra Kaupáss, fyrir mánuði og óskaði eftir skýringum á því að tímaritið Ísafold hefði verið tekið úr verslunum fyrirtækisins. Að sögn félagsins hefur Jón Helgi ekki séð ástæðu til að svara.

 

"Ef það reynist rétt að áhrifamenn í viðskiptalífinu ætli að stjórna lestri blaða og tímarita með því að fjarlægja úr hillum allt lesefni með umfjöllun sem ekki fellur að þeirra smekk og allt það efni sem kann að innihalda aðrar skoðanir en þeirra eigin, þá er það áhyggjuefni. Blaðamannafélag Íslands telur óþolandi að áhrifamenn reyni í krafti valds síns, auðæfa eða viðskiptahagsmuna að hafa áhrif á skrif fjölmiðla. Mislíki mönnum umfjöllun fjölmiðla eiga þeir þess kost að leita til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands eða dómstóla. Með aðgerðum sínum gagnvart tímaritinu Ísafold lítur út fyrir að stórfyrirtæki á Íslandi sé að beita áhrifum sínum á markaði til að knésetja tímarit og veigri sér ekki við að brjóta gerða samninga til að ná markmiði sínu," segir í tilkynningu frá Blaðamannafélaginu.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×