Innlent

PISA-könnun ekki hafin yfir gagnrýni

MYND/GVA

Ný PISA-könnun um námsárangur grunnskólanema á Íslandi í samanburði við önnur lönd er ekki hafin yfir gagnrýni en niðurstöðurnar ber þó að taka alvarlega. Þetta sögðu þingmenn við upphaf þingfundar á Alþingi í morgun.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, kvaddi sér hljóðs undir liðnum störf þingsins og benti á að PISA-könnunin sýndi að frammistaða íslenskra grunnskólanema í lestri og stærðfræði hefði versnað frá árinu 2000. Ísland væri undir meðaltai OECD í lesskilningi og náttúrufræðikunnáttu. Benti hann á að sjálfstæðismenn hefðu haft menntamálin á sinni könnu í 16 ár. Ný frumvörp um menntamál, sem ætti að ræða á þingi í dag, myndu ekki leysa vanda menntakerfisins. Sagði hann menntastefnu Sjálfstæðisflokksins hafa fengið falleinkunn með könnuninni.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagði hjákátlegt að hlusta á Höskuld tala niður menntakerfið. Benti hún á að Kennarasamband Íslands segði kerfið gott og ekki væri um áfellisdóm að ræða yfir því. Þá sagði hún að helsti áhrifavaldur þess að Íslendingar hefðu komst efst á lífsgæðalista Sameinuðu þjóðanna væru menntamál. Sagði hún niðurstöðu PISA-könnuninar vissulega vonbrigði og skoða þyrfit sérstaklega lesskilning nemenda. Frístundalestur ungmenna hefði minnkað og við því þyrfti að bregðast.

Fleiri þingmenn tóku til máls og sögðu könnunina ekki hafna yfir gagnrýni. Þannig benti Katrín Jakobsdóttir, Vinstri - grænum, að fimmtán evrópskir vísindamenn hefðu gagnrýnt könnunina og sagt hana ekki vera fullnaðargreiningu á námi. Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi skólastjóri, sagðist ósammála því að hægt væri að lesa út úr könnunninn samanburð á milli landa. Að halda því fram að lestur og stærðfræði dæmdi allt skólakerfið væri mikill misskilningur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×