Innlent

Slæmt skyggni og lélegur vegur möguleg orsök banaslyss

Frá slysstaðnum í gær.
Frá slysstaðnum í gær. MYND/Stöð 2

Frumrannsóknir benda til þess að slæmt skyggni og lélegt ásigkomulag vegar hafi verið þess valdandi að ungur ökumaður lét lífið rétt við mynni Norðurárdals í gærmorgun. Sævarr Helgi Lárusson, sérfræðingur hjá Rannsóknarnefnd umferðarslysa, segir vegmerkingar í góðu lagi við slysstað.

„Það er ekki hægt að bæta vegmerkingar mikið við slysstaðinn," sagði Sævarr Helgi Lárusson, sérfræðingur hjá Rannsóknarnefnd umferðarslysa, í samtali við Vísi. „Vegurinn er hins vegar lélegur og mjór og með krappri beygju í brekku."

Piltur um tvítugt lést í umferðarslysi við mynni Norðurárdals í gærmorgun. Pilturinn var á leið í vesturátt, niður af Öxnadalsheiði, á litlum jeppa þegar hann missti stjórn á bílnum í beygju með fyrrgreindum afleiðingum.

Vegakaflinn þar sem slysið átti sér stað hefur lengi þótt varasamur. Unnið er að lagningu nýs vegar í nágrenni við slysstað og markmiðið að taka hann í notkun næsta haust.

Sævar segir rannsóknir á slysinu enn á frumstigi en margt bendi til þess að slæmt skyggni og hættulegur vegakafli hafi átt stóran hlut í máli. Talsverð þoka var á heiðinni þegar slysið átti sér stað.

Ekki er unnt að greina frá nafni hins látna að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×