Lífið

Bókavörður bakar Loga vandræði

Var viðbúinn ýmsu en ekki þessari óvæntu vendingu.
Var viðbúinn ýmsu en ekki þessari óvæntu vendingu.

„Ohhh, já, ekki bjóst ég við því að þetta kæmi í bakið á okkur. Ekki þetta,“ segir Logi Bergmann Eiðsson sjónvarpsmaður.

Á fimmtudag lagði Páll Ásgeir Ásgeirsson blaðamaður varaformann Vinstri grænna, hina fjölfróðu Katrínu Jakobsdóttur, í æsispennandi viðureign í spurningaþætti Stöðvar 2, Meistaranum, sem Logi Bergmann hefur umsjá með.

Féll þar út síðasta konan í keppninni og í undanúrslitum sitja nú fjórir karlar fyrir á fleti. Hins vegar hafa Fréttablaðinu borist ábendingar um að þarna hafi pottur verið heldur betur brotinn. Og Páll Ásgeir sigrað ómaklega. Seint í keppninni lagði hann undir fimm stig og fékk spurninguna: Hver er landsbókavörður? Páll svaraði skilmerkilega: Sigrún Klara Hannesdóttir, og þóttist eiga kollgátuna. Fróða áhorfendur rak hins vegar í rogastans. Því landsbókavörður er Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir. Engu að síður staðhæfir Logi að Páll hafi haft rétt svar. Hvernig má það vera?

„Jú, það er þannig að þessi tiltekni þáttur var tekinn upp 28. mars. Við áttum sex þætti inni sem er mjög langur tími. En þá snerist þetta um praktísk atriði. Einhverjir voru að fara út og þetta voru einu dagarnir sem við áttum í tökur,“ segir Logi. „Þetta var klárlega rétt svar á þeim tíma.“

Og þannig var að Sigrún Klara, sem gegnt hafði stöðunni í fimm ár, notfærði sér hina svokölluðu 95 ára reglu og var skipaður nýr landsbókavörður 1. apríl.



„Við höfum forðast að spyrja um störf og stöður þar sem lítið atvinnuöryggi er ... fótboltaþjálfara og slíka. En landsbókavörður ...“ segir Logi. Það kom Meistarafólki gersamlega í opna skjöldu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.