Lífið

Höfuðborgin í algjöran forgang

Gísli segist, sem hafnarstjóri og formaður Hafnarsambandsins, fylgjandi því að þungaflutningar verði færðir á sjóinn. Kostnaður við slit á vegum landsins eftir þungaflutninga sé meiri en sem nemur þungaskattinum.
Gísli segist, sem hafnarstjóri og formaður Hafnarsambandsins, fylgjandi því að þungaflutningar verði færðir á sjóinn. Kostnaður við slit á vegum landsins eftir þungaflutninga sé meiri en sem nemur þungaskattinum.
Gísli Gíslason hefur verið viðriðinn Hvalfjarðargöngin í um átján ár, allt frá því að hann, þá bæjarstjóri á Akranesi, var skipaður í nefnd á vegum samgönguráðuneytisins um möguleika þess að grafa göng undir Hvalfjörð. Síðan framkvæmdir loks hófust árið 1996 hefur hann verið stjórnarformaður Spalar hf. Tvöföldun algjör lykilframkvæmd

Nú stendur vilji ykkar til þess að tvöfalda göngin. Hver er staðan á því?

„Spölur gerði samkomulag við Vegagerðina núna nýlega sem lýtur að því að það er verið að fjármagna skipulagsmálin, umhverfismálin og kaup á nauðsynlegu landi undir tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi og tvöföldun á göngunum. Í rauninni þarf þetta að fara saman að okkar viti. Það dugir ekki að tvöfalda bara annað hvort miðað við þá umferð sem er orðin.

Við erum að vona að þetta verkefni verði undirbúið núna á næstu tveimur árum og verði þá tilbúið til framkvæmda. Það myndi þýða að hægt væri að opna ný göng tveimur árum síðar.“

Hvernig yrði slík framkvæmd kostuð?

„Það eru ýmsir möguleikar sem koma til greina en við skiljum það eftir svolítið opið hvernig þetta verður gert. Spölur gæti hugsanlega tekið þetta að sér en hins vegar getur Vegargerðin gert þetta líka, jafnvel með einhverju tilleggi frá Speli ef gjalddtöku í göngunum verður haldið áfram til 2018.

Auðvitað eru ýmsir sem telja eðlilegast að gjaldið í göngin verði fellt niður og ríkið borgi bara allan pakkann, sem færi aldrei undir tíu milljarða. Önnur leið væri hins vegar að halda gjaldtökunni til 2018 með svipuðu gjaldi og verið hefur, að minnsta kosti ekki hærra, og það gæti myndað sjóð til að dekka hluta framkvæmdanna. En þetta ræðst sjálfsagt allt í maí þegar í ljós kemur hvernig stjórn landsins verður skipuð.“

Er tvöföldunin nauðsynleg?

„Það er ljóst að þessi framkvæmd er algjör lykilframkvæmd, bæði fyrir höfuðborgina og landsbyggðina. Umferðarþunginn um göngin er orðinn margfalt meiri en gert var ráð fyrir í upphafi og aukningin er stöðug. Við sjáum ekkert lát á henni þannig að þetta er verkefni sem blasir við að þurfi að leysa bæði vegna umferðaröryggis og líka til þess að umferðin verði greið.

Það verða miklar tafir yfir sumartímann, sérstaklega að norðanverðu á sunnudögum þegar stórir hópar fólks eru á leiðinni í bæinn. Við erum samt ekki að halda því fram að tvöföldun sé nauðsynleg vegna umferðarþungans sem er í dag. Við sjáum það hins vegar fyrir að við verðum komin í vanda vegna umferðarþunga árið 2009, og þann vanda er skynsamlegast að leysa með tvöföldun.“

Mun hámarkshraði í göngunum aukast?

„Nei, en umferðin yrði auðvitað mun greiðari miðað við á álagstímum nú. Það er gullvæg regla að halda umferðarhraða í skynsamlegum tölum í göngunum og 70 kílómetra hámarkshraði hefur gefist ágætlega. Það myndi skerða öryggi að hækka hann, sem er andstætt tilgangi tvöföldunarinnar.“

Mannvirki sem mun jafnvel standa um árhundruða skeið

Nú hafa Faxaflóahafnir, aðaleigandi Spalar, lýst áhuga á að fjármagna lagningu Sundabrautar. Er litið á þessi tvö verkefni sem nátengd?

„Við erum að reyna að tengja saman leiðina frá athafnasvæðunum í Sundahöfn og að Grundartanga, og til að það takist þá verður að vera skotheld leið á milli svæðanna. Ég vona að Sundabrautin sé orðin það brýnt verkefni að hún muni fylgja á svipuðum tíma. Við sáum þetta í rauninni sem tvo pakka, að Spölur gæti komið að tvöföldun Hvalfjarðarganga og vega í næsta nágrenni og síðan væri hægt, eins og stjórn Faxaflóahafna hefur boðið upp á, að koma inn í Sundabrautarverkefnið alveg frá Kollafirði og að Sæbraut.“

Hvernig þætti þér skynsamlegast að leggja Sundabrautina?

„Þegar kemur að lagningu Sundabrautar finnst mér umferðaröryggi skipta mestu máli. Það sýnir sig þegar eitthvað gerist í Ártúnsbrekkunni að þá er landið frá höfuðborginni lokað til suðurs og vesturs. Það gengur auðvitað ekki upp og því er Sundabrautin löngu tímabær.

Fyrst ekki náðist sátt um innstu leiðina svonefndu þá sýnist mér allt hníga að því að gerð verði Sundagöng. Brú eða botnstokkur eru að mínu mati illfærar lausnir. Þótt göng séu dýrasti kosturinn þá verða menn að horfa til þess að þetta er mannvirki sem mun standa um áratuga ef ekki árhundruða skeið. Þá eiga menn ekki að vera að horfa í aura sem munu til lengri tíma örugglega skila sér. Og ég tel að það sé örugglega hægt að vinna þetta verkefni í einkaframkvæmd með skynsamlegum hætti.“

Veggjöld mega ekki vera úr tengslum við framkvæmdakostnað

Umræða um einkaframkvæmdir í vegamálum hefur farið hátt undanfarið og nýlega kynnti Sjóvá tillögur sínar um tvöföldun Suðurlandsvegar. Hvað finnst þér um slíkar hugmyndir?

„Allar slíkar hugmyndir eru góðra gjalda verðar, en ríkið verður auðvitað alltaf að hafa það að leiðarljósi að framkvæmdirnar séu hagkvæmar og að þær séu ekki bara einkaframkvæmdarinnar vegna. Það má segja að eignarhald Spalar, sem er að stærstum hluta í eigu sveitarfélaga og nú Faxaflóahafna og ríkisins, sé blanda af opinberri eignaraðild og einkaeignaraðild. Að mínu mati virkar það módel mjög vel vegna þess að gjaldinu sem tekið er af vegfarendum, er skilað til baka í lægra gjaldi þegar vel gengur.

Það er mjög mikilvægt að gæta þess að veggjöld eða önnur gjöld vegfarenda verði ekki úr tengslum við kostnaðinn við framkvæmdina og þar tel ég þurfa að ríkja mjög strangt eftirlit. Einkaframkvæmdir á vegum eiga ekki að leiða til þess að menn taki sér óhóflegan arð, heldur eiga þær fyrst og fremst að vera í þágu vegfarenda og fólk á að geta séð ávinninginn meðal annars á flýtingu framkvæmda. Ef þetta grundvallaratriði er í lagi þá held ég að menn þurfi ekki að hræðast einkaframkvæmdir sem slíkar.

Svo þarf líka að hafa í huga að oftast eru þetta það stórar framkvæmdir að reglur um opinber útboð verða að gilda til þess að hægt sé að ná sem hagstæðustum samningum.“

Eru einhver önnur brýn verkefni sem þú sérð fyrir þér að gætu farið í einkaframkvæmd?

„Ég held að Suðurlandsvegur, Sundabraut og Hvalfjarðargöngin að hluta liggi beinast við. Það mætti auðvitað líka nefna Reykjanesbrautina í svipuðu samhengi en hún er að vísu komin lengra. Ég sé hins vegar ekki fyrir mér að einkaframkvæmdir dugi úti á landi á fáförnum spottum. Ríkissjóður verður alltaf að koma þar inn. Það má hins vegar nefna að í Færeyjum hafa menn farið dálítið skemmtilegar leiðir. Þar hefur ríkið sjálft stofnað hlutafélög sem standa undir framkvæmdum, aðallega gangagerð, en ríkið hefur lagt inn kostnaðinn af ferjusiglingum og innheimt mismuninn í veggjald, því göngin eru nokkuð dýrari kostur. Það hefur gengið mjög vel.“

Úrbætur í borginni brýnastar

Eru samgöngur á Íslandi nægilega góðar?

„Samgöngur á Íslandi hafa tekið gríðarlegum breytingum til hins betra mjög víða. Menn hafa lagt mikla fjármuni í samgöngubætur, en þó eru gríðarleg verkefni enn eftir. Það er líka ljóst að í nágrenni við höfuðborgina – þótt ýmislegt hafi verið gert – hefur umferðaraukningin orðið það mikil að Vegagerðin hefur greinilega ekki haft í við þá þróun. Við því verður að bregðast.

Það er auðvitað aldrei neitt gagnrýnislaust við val á framkvæmdum og hver lítur sínum augum á silfrið eins og gengur – menn horfa yfirleitt nálægt sér þegar þeir meta forgangsröð. Að mínu viti er hins vegar kominn tími á að rýmka kransæðarnar til og frá höfuðborginni. Það er öllum ljóst að þær þurfa að geta flutt meiri umferð.

Það er þó mjög ánægjulegt til þess að vita að menn hafa verið með ýmsar hugmyndir um skynsamlegar framkvæmdir í vegagerð. Ég get til dæmis nefnt hugmyndir manna norður á Akureyri um Vaðlaheiðargöng og hugmyndir um jarðgangagerð fyrir austan. Þótt það séu ekki göng sem bera sig í peningum talið á stuttum tíma þá styrkja þau búsetu á þessum svæðum og skipta því miklu máli.“

Hvernig líst þér á hugmyndir um miðhálendisveg, til dæmis tillögu sem félagið Norðurvegur hefur kynnt um nýjan Kjalveg?

„Þótt það geti verið hagkvæmt þá er að mínu mati ýmislegt sem mælir á móti því að ráðast í það verkefni á næstunni. Ég held að það sé einfaldlega ekki stór þörf fyrir slíka framkvæmd. Það er miklu brýnna að fylgja ströndinni, með tilliti til veðurs og byggða, þannig að þótt þetta geti verið spennandi verkefni þá held ég að það sé í öllu falli ekki tímabært. Verkefnin blasa við miklu víðar en svo.“

Þungaflutningar fari sjóleiðina

Hvað með sjóinn? Ert þú fylgjandi því að auka strandflutninga?

„Sem bæði hafnarstjóri og formaður Hafnarsambandsins er ég fylgjandi því að menn nýti sjóinn til flutninga, og að mínu mati þarf að finna þá leið að allur þungaflutningur komist á sjóinn. Maður skilur það auðvitað að með bættu vegakerfi, auknum hraða og aukinni kröfu um að fá dagvöru með skömmum fyrirvara þá munum við aldrei snúa þeirri þróun við að flutningar á vegunum aukist, en við getum hins vegar gripið til ýmissa aðgerða til þess að setja þungavörur á sjóinn aftur. Það verður þó ekki gert að óbreyttu kerfi, og þá þarf að skoða hvernig hægt væri að liðka fyrir þessum flutningum.

Í dag meta menn það svo að sjóflutningar séu óhagkvæmur kostur og því snýst þetta um að kollvarpa því viðhorfi. Það er auðvitað sanngirnismál að skoða það hvernig gjaldtöku er háttað af flutningum vegina. Margir telja að það sé í rauninni verið að niðurgreiða kostnað við vegina þar sem þungaflutningarnir slíti vegunum töluvert meira en sem nemur þungaskattinum. Ef vilji manna stendur til þess að snúa þessu við, þá þarf að skoða það.“

Er þörf á breytingum?

„Ég held að efnahagur þjóðarinnar kalli á það að menn leysi brýnustu verkefnin í vegamálum, og þar ætti það að vera komið í algjöran forgang að losa um umferðina til og frá höfuðborgarsvæðinu. Ég hef grun um að þetta verði áfram mjög spennandi vettvangur fyrir marga, því greiðar samgöngur skipta svo miklu máli fyrir tækifæri bæði höfuðborgar og landsbyggðar til að þróast og þroskast.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.