Tónlist

33 atriði staðfest

Tónlistarmaðurinn Mugison kemur fram á Aldrei fór ég suður ásamt 32 öðrum hljómsveitum og listamönnum.
Tónlistarmaðurinn Mugison kemur fram á Aldrei fór ég suður ásamt 32 öðrum hljómsveitum og listamönnum. MYND/Daníel

Alls hafa 33 atriði verið staðfest á tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður sem verður haldin á Ísafirði um páskana. „Við ætluðum að fækka atriðum í ár en þau voru öll svo geðveik sem sóttu um þannig að það var ekki hægt að segja nei,“ segir Mugison sem hefur skipulagt hátíðina undanfarin ár.

„Við höfum fengið 80 til 90 umsóknir og þær eru ennþá að berast, þótt við séum eiginlega búin að fylla í öll „slott“.

Hátíðin hefur hingað til verið haldin á laugardegi en í þetta sinn hefur föstudeginum langa verið bætt við dagskrána. Á meðal þeirra sem koma fram verða Blonde Redhead, franski raftónlistarmaðurinn Charlie, Lay Low, Æla, Bloodgroup, Jan Mayen, Ham, Mínus, Benny Crespo"s Gang, Dóri DNA og að sjálfsögðu Mugison, sem verður með stærra band með sér en venjulega. Á síðasta ári voru 26 atriði á dagskrá hátíðarinnar í stað 33 núna og því er ljóst að Aldrei fór ég suður verður stærri en nokkru sinni fyrr.

Hátíðin verður í þetta sinn haldin í skemmu við Ísafjarðarhöfn en hingað til hefur hún verið haldin í Edinborgarhúsinu sem er nokkuð smærra í sniðum. „Þetta er meira niðri á bryggju þannig að það verður auðvelt fyrir fólk að kæla sig á milli atriða,“ segir Mugison, sem reiknar með stórskemmtilegri hátíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×