Mark Hughes, stjóri úrvalsdeildarliðs Blackburn, segir að sínir menn muni ekki taka Arsenal sömu vettlingatökum og Real Madrid þegar liðin mætast í deildinni um helgina.
"Þegar þú ert að spila á móti jafn hæfileikaríkum mönnum og liðsmönnum Arsenal, máttu ekki gefa þeim það pláss sem þeir þurfa til að skjóta þig í kaf og mér þótti Real Madrid gefa Arsenal allt of mikið pláss til að athafna sig í leik liðanna í Meistaradeildinni. Eitt er víst, þeir fá ekki svona mikinn frið á móti okkur, enda hefur Arsenal ekki gengið sérstaklega vel á móti liðum sem pressa þá stíft í vetur," sagði Hughes.