Gamla kempan Teddy Sheringham hjá West Ham hefur látið það uppi að sér hafi boðist að ganga í raðir síns gamla félags Tottenham í þriðja sinn á ferlinum í janúar, en sagðist hafa afþakkað það því hann væri mjög ánægður hjá West Ham.
Sheringham lék með Tottenham á árunum 1992-97 og aftur frá 2001-03. Hann sagði stjóra sinn ekki hafa ætlað að standa í vegi fyrir því ef hann langaði að flytja sig um set í Lundúnum. "Þetta var vissulega áhugavert, en grasið er ekki endilega grænna hinumegin við lækinn," sagði Sheringham, sem er elsti útileikmaður í úrvalsdeildinni og verður fertugur nú í vor.