Erlent

Titringur í ríkisstjórn Reinfeldts

Viðskiptaráðherra Svíþjóðar Maria Borelius hefur sagt af sér eftir einungis eina viku í embætti. Hún hefur viðurkennt að hafa ráðið barnfóstrur án þess að borga skatta og önnur launatengd gjöld. Forsætisráðherrann Fredrik Reinfeldt greindi frá því í útvarpsviðtali að þau hefðu komist að samkomulagi um afsögnina.

Í vikunni stóðu öll spjót á menntamálaráðherra landsins, Cecilia Stego Chilos, sem hefur viðurkennt að hafa ekki greitt afnotagjöld, en hún ber ábyrgð á þeim sem yfirmaður ríkisfjölmiðlanna. Upp hefur komist að María Borelius og þriðji ráðherrann í ríkisstjórn Reinfeldts hafa ekki heldur greitt afnotagjöld.

Fjölskylda Maríu Borelius hefur einnig verið ásökuð um það í fjölmiðlum að hafa ekki greitt fasteignaskatta af sveitasetri í Suður-Svíþjóð, en það er skráð í skattaparadísinni Jersey. Þá er María ásökuð um að hafa ekki tilkynnt yfirvöldum um hlutabréfaviðskipti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×