Innlent

Fleiri vilja íslenskt vatn

Útflutningur á íslensku vatni hefur aukist um þriðjung frá síðasta ári, en það er þrátt fyrir að síðustu þrír mánuðir þessa árs séu ekki taldir með. Forstjóri stærsta vatnsútflytjandans á íslensku vatni segir þó langt því frá að fyrirtækið sé dottið í lukkupottinn.

Útflutningur á íslensku vatni hefur aukist um þriðjung frá síðasta ári, en það er þrátt fyrir að síðustu þrír mánuðir þessa árs séu ekki taldir með. Þrjár komma þrjár milljónir tonna af drykkjarvatni voru fluttar úr landi fyrstu níu mánuði ársins, rúmlega áttahundruð þúsund tonnum meira en allt síðasta ár. Ölgerðin Egill Skallagrímsson er stærsti vatnsútflytjandinn á Íslandi og flytur út í kringum 95% vatns sem flutt er út frá Íslandi.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir að á þessu ári sé fyrirtækið að tvöfalda útflutning sinn á íslensku vatni. Frá árinu 2002 hafi verið jafn og góður vöxtur í útflutningi fyrirtækisins á vatni. Andri segir jafnframt að hann áætli að á næsta ári verði góð aukning á útflutningnum. Hann segir þó langt því frá að fyrirtækið sé dottið í lukkupottinn.

Bandaríkjamarkaður er langstærsti markaðurinn. Andri segir að útlendingum finnist flestum íslenska vatnið gott. Hreinleikinn í vatninu heilli. Sumum finnist þó vatnið bragðlaust og það sé ekki sjálfgefið að öllum finnist íslenska vatnið það besta í heimi þó flestum Íslendingum þyki það.

Ellefu fyrirtæki hafa lagt upp laupana eftir að hafa reynt að selja íslenskt vatn erlendis. Andri segir að fyrirtækið leggji mikla áherslu á að byggja útflutninginn skynsamlega upp. Íslenska vatnið verði aldrei neitt risa stórt enda sé framleiðslukostnaður hér á landi hár og flutningskostnaður mikill. Vegna þessara þátta verði fyrirtækið að selja vatnið frekar dýrt erlendis og því er það ekki á allra færi að kaupa það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×