Sport

Enn tapar New York

Larry Brown hefur enn ekki náð sínum fyrsta sigri með New York
Larry Brown hefur enn ekki náð sínum fyrsta sigri með New York NordicPhotos/GettyImages

Þrír leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt. Lærisveinar Larry Brown í New York eru enn án sigurs og töpuðu öðrum leik sínum í röð á heimavelli í nótt fyrir Golden State Warriors. Sacramento náði sínum fyrsta sigri gegn Phoenix og LA Lakers lögðu Denver öðru sinni á nokkrum dögum.

Jason Richardson var stigahæstur í liði Golden State í 83-81 sigri gegn New York og skoraði 24 stig, en Baron Davis lék með liðinu á ný eftir meiðsli. Stephon Marbury var stigahæstur hjá New York með 15 stig.

Leikur Phoenix og Sacramento var fjörugur og skemmtilegur, en Sacramento stal sigrinum nokkuð óvænt á útivelli 118-117. Peja Stojakovic fór hreinlega hamförum í þriðja leikhlutanum og skoraði þar 23 af 33 stigum sínum. Shareef Abdur-Rahim skoraði 23 stig, hirti 12 fráköst og gaf 7 stoðsendingar og Brad Miller var með 17 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar. Hjá Phoenix var Leandro Barbosa stigahæstur með 23 stig, Steve Nash með 18 stig og 13 stoðsendingar, Shawn Marion var með 16 stig og 14 fráköst og Boris Diaw vantaði eitt frákast í að ná þrennu af varamannabekknum, skoraði 11 stig, gaf 11 stoðsendingar og hirti 9 fráköst.

Lakers lögðu loks Denver nokkuð örugglega 112-92. Kobe Bryant skoraði 37 stig og hirti 8 fráköst, Chris Mihm skoraði 20 stig og hirti 13 fráköst og Lamar Odom skoraði 20 stig og hirti 8 fráköst fyrir Lakers. Carmelo Anthony var bestur hjá Denver með 21 stig og Andre Miller skoraði 20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×