Lífið

Farsímahringingar til vandræða

Farsímahringingar heyrast gjarnan á óheppilegum tímum eins og í jarðarförum og beinum útsendingum. Tónlistarmenn verða líka oft fyrir truflun þeirra eins og stórsöngkonan Kiri Te Kanawa fékk að reyna í vikunni. Eyþór Gunnarsson tónlistarmaður hefur tekið upp á því að spila kunnuglega farsímahringingu í upphafi athafna eða tónleika ef aðstæður eru þannig að tónlistin sem verið er að flytja sé viðkvæm og þörf sé á þögn. Þetta virðist virka mjög vel og þeir sem séu með farsíma kanni hvort ekki sé slökkt á honum. Aðspurður hvort það sé truflandi ef farsími byrji að hringja í miðju verki segir Eyþór að það geti verið svo en ef tónlistin sé nógu hávær til að yfirgnæfa það skipti það engu máli. Ef tónlistin sé lágvær og krefjist mikillar einbeitingar geti hringing sett flytjanda út af laginu. Síminn hringdi tvisvar á tónleikum Kiri Te Kanawa á miðvikudaginn og þurfti hún að biðja í bæði skiptin um að slökkt yrði á símanum. Þetta er langt frá því að vera einsdæmi en síminn hefur svo fréttastofa Stöðvar 2 og Bylgjunnar viti til hringt hjá saksóknara í dómsuppkvaðningu og hjá presti í miðri guðsþjónustu. Jóhann Friðgeir Valdimarsson tenór þekkir til truflana símhringinga á verstu stundum og segir hann síma hringja í um þriðju hverri jarðaför sem hann syngur við. Hann segir Íslendinga oft gleyma að slökkva á símunum. Þetta hafi komið fyrir ýmsa en hann hafi sjálfur verið það heppin að athöfnin hafi rétt verið að byrja þannig að hann hafi rétt sloppið. Hann hafi því yfirleitt slökkt á símanum sínum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.