Innlent

Álykta gegn framboði Íslands?

Svo gæti farið að Landsfundur sjálfstæðismanna álykti gegn framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og krefjist þess að framboðið verði dregið til baka. Í drögum að ályktunum fyrir flokksþing Ungra sjálfstæðismanna segir að sambandið vilji að framboð Íslands verði dregið til baka. Fráfarandi formaður sambandsins, Hafsteinn Þór Hauksson, sagði í samtali við fréttastofu að ályktunin væri í samræmi við aðrar ályktanir Ungra sjálfstæðismanna um sama mál þar sem framboðinu væri mótmælt sökum kostnaðar og þess að stefnumál Íslendinga væru enn óljós. Hafsteinn segir ljóst að samþykki sambandið ályktunina muni Ungir sjálfstæðismenn og fleiri andstæðingar þess innan flokksins berjast fyrir því að Landsfundur flokksins, sem haldinn verður um miðjan næsta mánuð, krefjast þess að framboðið verði dregið til baka. Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður flokksins, hefur einn þingmanna lýst sig andvígan framboðinu en hann hefur sagt að fleiri þingmenn séu andvígir því. Hafsteinn Þór tekur í sama streng og segir andstæðinga framboðsins í meirihluta meðal flokksmanna.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×