Menning

Íslenskt landslag heillar forvörð

Þeir sem leggja leið sína á Skriðuklaustur á næstunni gætu komið við í Gallerí Klaustri, þar sem einn virtasti forvörður Evrópu heldur myndlistarsýningu.

Öll verkin á sýningunni eru blýantsteikningar, sem sýna vel landslagið í Norðurdal Fljótsdals þar sem Venturini býr í gömlum vinnubúðum Landsvirkjunar ásamt öðrum sem vinna að fornleifarannsókninni á Skriðuklaustri. Á teikningunum, sem eru flestar frá því í fyrra, gefur meðal annars að líta klettasyllur, steina, læki, tré og svo sjálfa Jökulsána.

Stíll Venturinis er nokkuð sérstakur, þar sem hann stækkar upp smáa hluti, svo að örlitlar sprænur verða að stórfljótum og smávægilegar klappir að stórgrýti. Listamaðurinn er vanur að vinna með smáar einingar og það má glöggt sjá á myndunum, sem eru mjög fínlegar.

Venturini hefur komið hingað til lands undanfarin þrjú sumur, til að forverja þá hluti sem fundist hafa í rannsóknum við Skriðuklaustur. Þeir sem standa að uppgreftrinum þar segja það ómetanlegan feng að fá Venturini hingað til lands, enda sé hann af flestum talinn einn allra virtasti forvörður Evrópu. Þá sé það ekki síður skemmtilegt að hann skuli hafa ákveðið að halda myndlistarsýningu á Skriðuklaustri í Fljótsdal.

Sýningin Venturinis stendur til fjórtánda ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×