Lífið

Beðið eftir G8-fundinum

Stærstu tónleikum sögunnar lauk um miðnætti í gær. Nú bíða menn í ofvæni eftir því hvað kemur út úr fundi G8-leiðtoganna sem allt framtakið snerist um. Skipuleggjendur tónleikanna náðu svo sannarlega markmiði sínu: að ná athygli leiðtoga hins vestræna heims og sýna að almenningur er sammála um að það sé kominn tími til að gera meira til að útrýma fátækt og hungri í heiminum. Mjög misjafnt var hversu margir mættu á tónleikana - það voru sjö hundruð þúsund manns við Circo Massimo í Róm, hundruð þúsunda í Fíladelfíu í Bandaríkjunum að fylgjast með Will Smith, Black Eyed Peas og fleirum, og tvö hundruð þúsund í Hyde Park þar sem má segja að mest hafi verið lagt í dagskrána, Það mættu líka tvö hundruð þúsund manns í mótmælagöngu í Edinborg en frekar fáir voru á Rauða torginu í Moskvu, enda er stór hluti íbúanna þar upptekinn við að berjast við eigin fátækt. Alls fylgdust líklega um þrjú þúsund milljónir manna með tónleikunum. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, ávarpaði tónleikagesti í Hyde Park í London og sagði að framtakið væri „svo sannarlega sameinaðar þjóðir“. Og hann þakkaði fólkinu fyrir hönd hinna „fátæku, veiku og varnarlausu“. Bill Gates, stofnandi Microsoft og Gates-hjálparstofnunarinnar, segir það vera hægt að nota þann styrk sem ríku löndin búi yfir til að bjarga mannslífum. „Það er mikilvægt að fólk átti sig á þessu. Grasrótarstuðningur af þessu tagi skiptir sköpum,“ segir Gates. Það er líka meira en að segja það að hreinsa upp eftir allan þennan fjölda. Hreinsunardeildum víðs vegar um heiminn beið ærið verkefni í morgun. Rusl má þó hreinsa upp og þykir meira um vert að lítið var um pústra og óhöpp miðað við mannfjöldann. Leiðtogar Bretlands, Rússlands, Bandaríkjanna, Japans, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu og Kanada hafa fengið skilaboðin og nú er að sjá hvernig unnið verður úr þeim.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.