Lífið

Höfðað til fólks undir fertugu

Sirkus, ný sjónvarpsstöð 365, hefur göngu sína klukkan tíu í kvöld. Stöðin sem verður í opinni dagskrá á aðallega að höfða til fólks undir fertugsaldri. Vikuritið Sirkus Reykjavík kom út í fyrsta sinn í dag en sjónvarpsstöðin sem ber sama nafn fer í loftið klukkan tíu í kvöld. Gunnar Smári Egilsson, framkvæmdastjóri 365, sem á og rekur báða miðlana, segist ekki hræddur um að samkeppnin muni skemma fyrir Stöð tvö. Hann telji að það sé rúm fyrir fleiri stöðvar, sérstaklega stöðvar af þeirri tegund sem Sirkus er. Stöð 2 sé með allt öðruvísi efni og miklu dýrara og annarrar tegundar. Dagskrá Sirkuss verður send út í opinni dagskrá á örbylgju og UHF og eiga um 75 prósent landsmanna að geta náð henni til að byrja með en stefnt er að því að hækka það hlutfall þegar frá líður. Sirkusstjóri er Árni Þór Vigfússon. Gunnar Smári segist ekki hræddur við að ímynd fyrirtækisins skaðist þó svo dæmdur fjárglæpamaður sé ráðinn í stöðu Sirkusstjóra. Hann telji að fólk muni ekki eiga í vandræðum með að aðskilja fyrirtækjarekstur og dómstólana og þau svæði í samfélaginu þar sem menn taki út refsingu sína. Það liggi ekki á fyrirtækjum þessa lands að framfylgja dómum eða refsingum. Það sé dómstóla og fangelsisyfirvalda. Aðalsmerki sjónvarpsstöðvarinnar verður Kvöldþátturinn sem Guðmundur Steingrímsson hefur umsjón með fjögur kvöld í viku. Guðmundur vill þó ekkert segja til um hvernig þátt er um að ræða. Það verði að koma í ljós. Þátturinn heiti Kvöldþátturinn og þar séu skrifborð og sófi svo formið sé landsmönnum ekki ókunnugt. Þátturinn sé grafalvarlegur og ekkert verði fíflast. Guðmundur er ekkert stressaður heldur segist hann hlakka til.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.