Erlent

Íslendingur særðist í sprengjuárás

Íslenskur öryggisvörður særðist í bílsprengjuárás sem kostaði tvo samstarfsmenn hans lífið í Bagdad á laugardag. "Ég held hann hafi sloppið við varanleg meiðsli, hann er að minnsta kosti mjög lítið slasaður sem betur fer," sagði Ólafur E. Magnússon, faðir Jóns Ólafssonar, í gærkvöldi. Hann heyrði í Jóni þegar skömmu eftir árásina þegar gert hafði verið að sárum hans. Jón Ólafsson var með sex öðrum mönnum í bíl þegar árásin var gerð. Tveir mannanna létust í árásinni og þrír særðust talsvert en Jón og annar maður særðust sýnu minna en þeir sem voru með þeim í bílnum. Hann fékk sprengjubrot í andlitið. Jón er 35 ára og hefur verið í Írak sem öryggisvörður fyrir bandarískt fyrirtæki í hálft annað ár. "Maður veit að þeir sem eru þarna eru í einhverri hættu," segir Ólafur faðir hans. "Við höfum haft samband og ég hef talið hann nokkuð öruggan."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×