Erlent

Tugir týna lífi í Irbil

Að minnsta kosti fimmtíu manns týndu lífi og hundrað særðust í bílsprengjuárás í Írak í gær. Skæruliðasamtökin Ansar al-Sunnah hafa lýst ábyrgð á verknaðinum á hendur sér. Árásin var gerð í gærmorgun í borginni Irbil í Kúrdistan þar sem hópur umsækjenda um störf í íröskum öryggissveitum beið eftir afgreiðslu. Bifreið var ekið að hópnum og síðan kvað við gífurlega öflug sprenging. Þegar sjúkrabílar komu á vettvang var aðkoman hræðileg, líkamshlutar lágu eins og hráviði á götunni og blóðpollar höfðu myndast. Nokkuð var á reiki hversu margir hefðu látist en fjöldi þeirra er ekki undir fimmtíu og í það minnsta hundrað særðust. Hús í nágrenninu stórskemmdust í sprengingunni, svo og fjöldi bifreiða. Uppreisnarmenn beina spjótum sínum í æ ríkari mæli að íröskum her- og lögreglumönnum, svo og þeim sem hyggjast ganga í þeirra raðir. Með því vilja þeir viðhalda upplausninni í landinu og auka þar með ólgu á meðal almennings. Í febrúarlok dóu 125 manns í bænum Hillah og 140 særðust þegar sprengja sprakk í hópi umsækjenda um störf í lögreglunni. Skæruliðasamtökin Ansar al-Sunnah hafa þegar lýst yfir ábyrgð á verknaðinum. Í yfirlýsingu sem þau sendu frá sér í gær sagði að "píslarvottur" úr þeirra hópi hefði náð að komast framhjá öllum varðstöðvum og sprengja bíl sinn þar sem "trúleysingjarnir" voru samankomnir. Með árásinni væri ráðist gegn kúrdísku peshmerga-sveitunum sem hefðu beygt sig fyrir "krossförunum." Ansar al-Sunnah hefur framið mörg hermdarverk gegn bandarískum og íröskum hersveitum en auk þess eru samtökin talin standa á bak við fjölda mannrána og morða á útlendingum í landinu. Af öðrum viðburðum í þessu róstusama landi má nefna að tveir bandarískir hermenn biðu bana í árásum uppreisnarmanna í fyrradag. Þá skýrðu íraskir embættismenn frá því að öryggissveitir hefðu haft hendur í hári frænda Saddams Hussein. Faðir mannsins er hálfbróðir Saddams og var einn af hans helstu ráðgjöfum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×