Erlent

Handtekinn vegna málverkaráns

Lögregla í Noregi hefur handtekið mann í tengslum við ránið á málverkunum Ópinu og Madonnu eftir Edvard Munch, en þeim var rænt af Munch-safninu í Osló í ágúst síðastliðnum. Hann er sá fjórði sem handtekinn er vegna málsins, en samkvæmt norska ríkisútvarpinu er hann á fertugsaldri og var handtekinn á vinnustað sínum. Hann er talinn hafa átt aðild að ráninu en samkvæmt lögreglu er hann ekki grunaður um að hafa framið ránið sjálft. Lögreglan í Osló tjáir sig að öðru leyti lítið um málið en hún segist á góðri leið með að upplýsa ránið og er bjartsýn á að endurheimta verkin, en þau eru samtals metin á um 1,3 milljarða króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×