Menning

Besta starf í heimi

"Ég var staðráðinn í því frá barnæsku að verða kokkur. Ég byrjaði að elda áður en ég var búinn með grunnskóla og ég hef verið að stefna að því alla ævi að læra að verða matreiðslumeistari og vinna við það. Ég veit ekki af hverju ég fékk þessa bakteríu en frændi minn kallaði mig alltaf Konna kokk þegar ég var lítill og þannig byrjaði þetta. Þetta er algjört draumastarf. Ég er búin að vakna á hverjum morgni síðastliðin átta ár og bíða eftir því að fara í vinnunna. Ég er gjörsamlega alsæll í mínu starfi," segir Hákon sem hefur greinilega fundið ástina í sínu lífi, af svo mikilli ástríðu talar hann um starfið sitt. "Strax eftir grunnskóla fór ég á samning í eitt ár á A. Hansen. Síðan árið 1996 fékk ég samning hér á Grand Hótel og vann í fjögur ár undir lærimeistara mínum, Elíasi Hartmann. Ég vann mig sem sagt upp úr afgreiðslunema og upp í kokkinn og útskrifaðist sem sveinn í matreiðslu árið 2000. Síðan útskrifaðist ég úr meistaraskólanum árið 2002 en það er eins og hálfs árs nám og með það í vasanum er ég titlaður matreiðslumeistari og get tekið nema að mér á samning. Nú er ég einmitt með sex nema á samning hjá mér," segir Hákon sem hefur aldeilis fengið mikla reynslu í gegnum árin. "Ég vann sumar 1999 á veitingastað sem heitir Sleepy Hollow í New York. Það er rosa flottur veitingastaður rétt fyrir utan Manhattan. Þar er náttúrlega brjálaður erill og ég lærði mjög mikið á þeim tíma. Árið 2002 fékk ég frí á Grand Hótel um sumarið og fór til Svíþjóðar og vann sem yfirkokkur á hóteli. Ég hef sem sagt náð mér í mjög góðan reynslubanka síðan ég byrjaði fimmtán ára." Þó Hákon virðist hafa komið sér vel fyrir í kokkastéttinni þá er hann hvergi nærri hættur að færa sig upp á við. "Ég hef tekið þátt í keppninni "matreiðslumaður ársins" en aldrei unnið. En það kemur að því. Það var einmitt keppni á Akureyri núna um helgina en í staðinn fyrir að fara sendi ég þrjá nema frá mér í keppnina nemi ársins. Ég hef líka í hyggju að fara til Noregs í frekara eldhús- og hótelnám á haustmánuðum," segir Hákon sem hefur auðvitað leitt hugann að því að opna sitt eigið hótel eða veitingastað. "Það væri auðvitað mjög gaman því þetta er skemmtilegur bransi. Sérstaklega núna hér á Íslandi út af öllum ferðamönnunum sem heimsækja landið. Ég kannsk dríf í þessu þegar ég er orðinn eldri og sjóaðri."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×