Menning

Stuð á skakinu um sumartímann

Garðar Berg Guðjónsson var ekki að koma af veiðum þegar blaðamaður tók hann tali heldur að huga að báti sínum Ríkey SH 405, sem hann hefur verið með á línu í vetur. "Ég hef aðallega verið að fá ýsu, en nú er ég að skipta úr línunni yfir á handfæri og þá er það þorskurinn. Ég byrja hér í flóanum og færi mig svo norðureftir og enda oft í Húnaflóanum. Þetta eru túrar sem geta varað í einn og hálfan sólarhring og ég landa þar þar sem ég er staddur hverju sinni." Garðar er einn á sínum báti en segist ekki finna fyrir einmanaleika. "Það eru allar græjur um borð, sími, talstöð og meira að segja sjónvarp og örbylgjuofn." Báturinn Ríkey heitir í höfuðið á eiginkonu Garðars en hann er búinn að eiga bátinn í 11 ár. Hann hafði verið lengi á sjó þegar hann ákvað að kaupa sinn eigin bát og segir að fyrir duglega menn geti verið ágætt upp úr þessu að hafa. Hann hefur alltaf verið á móti kvótakerfinu og segir að vissulega hafi stemningin dofnað eftir að allt var sett í kvóta. "Ég var í mörg ár á sóknarkvóta og það var allt öðruvísi og skemmtilegra og miklu meira kapp í mönnum. Maður verður bara að sætta sig við þetta." Hann segir að mórallinn í hans stétt sé samt afskaplega góður. "Sérstaklega á sumrin á skakinu, þá verður til alveg sérstakt samfélag þar sem menn þekkja hver annan vel og njóta veiðanna." Garðar notar bátinn sinn í skemmtisiglingar meðfram veiðunum enda hörku bátur með 300 hestafla vél sem gengur 30 sjómíliur. "Venjulegir bátar ganga þetta sjö sjómílur. Ég fer oft í skemmtisiglingar með fjölskyldu og vini og bregð mér á skotveiðar. Það getur verið mikið líf í kringum svona bát."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×