Innlent

Talstöðin FM 90,9 í loftið

Ný útvarpsstöð, Talstöðin, hefur útsendingar í dag. Útvarpsstöðin sendir út á tíðininni FM 90,9.

Illugi Jökulsson útvarpsstjóri segir útvarpsstöðina fyrst og fremst snúast um talað mál. Þó verði lag og lag í góðu lagi.

"Við ætlum að reyna að höfða til allra sem hafa áhuga á að hlusta á skikkanlega djúpa umræðu um lífið í landinu, samfélagið sem við lifum í, umhverfið og umheiminn," segir Illugi.

Útsending hefst í morgunsárið, fimm mínútur yfir sjö. Fréttir verða stundarfjórðungslega frá þeim tíma til níu á morgnana. Fastir dagskrárgerðarmenn stöðvarinnar eru sjö en fjöldi manna verður með þætti á stöðinni. Sjálfur ætlar Illugi að stjórna þættinum Á kassanum mínútu fyrir sex síðdegis: "Þar verður farið í gegnum það sem hefur verið að gerast á stöðinni hjá okkur."

Illugi stjórnar einnig nær tuttugu ára gömlum þætti sínum, Frjálsar hendur, sem áður var á dagskrá RÚV á sunnudagskvöldum.

Talstöðin er í eigu 365 - ljósvakamiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×