Innlent

Getur ekki mælt með vatninu

Lýðheilsustöð getur ekki mælt með því að sett sé á markað fólasínbætt íslenskt sódavatn, þrátt fyrir að stöðin mæli með því á sama tíma að landsmenn auki neyslu á því vítamíni. Meðal röksemda er að vítamínbætt, erlent morgunkorn er talið metta þörf „barna“ á þessu tiltekna B-vítamíni. Dreifing á drykknum Kristal plús, sem er vítamínbætt kolsýrt vatn, var nýverið stöðvuð. Umhverfisstofnun fékk Lýðheilsustöð til að meta hvort drykkurinn ætti að fara á markað en því mælir stöðin ekki með á þeim forsendum að í honum er B-vítamínið fólasín. Framleiðandinn, Ölgerð Egils Skallagrímssonar, segist þó hafa þróað drykkinn sérstaklega með íslenskar aðstæður í huga og byggt á rannsókn Lýðheilsustöðvar sem sýnir að neysla fólasíns er undir ráðleggingum. Samkvæmt Lýðheilsustöð getur skortur á fólasíni leitt til alvarlegra fósturskaða. Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnastjóri hjá Lýðheilsustöð, segir það rétt að þetta hljómi kannski svolítið mótsagnakennt en taka verði tillit til þess hvort hætta sé á ofneyslu hjá ákveðnum hópum, sem í þessu tilfelli sé hjá börnum. Ofneysla fólasíns getur dulið einkenna B12-vítamínsskorts. Erlent vítamínbætt morgunkorn inniheldur þó fólasín og reiknað er með að þaðan sæki íslensk börn vítamínið. Það vekur upp þá spurningu af hverju engin athugasemd er gerð við sölu við þess varnings. Hólmfríður segir þá vöru vera á markaði og hefð sé fyrir henni. Því verði að taka tillit til hennar þegar metin sé hættan á ofneyslu. Hólmfríður vildi ekki fara út í þá umræðu hvort ekki væri verið að mismuna framleiðendum og vísaði á umhverfisstofnun.  Helsti markhópur Ölgerðarinnar eru konur á barneignaaldri en þrátt fyrir að fólasínneyslu þeirra megi auka þá segir Hólmfríður ljóst að vítamínbætt sódavatn sé ekki leiðin til þess. Auk þess kveðst hún ekki sjá hvernig hægt sé að markaðssetja hollustuvöru sem ekki sé við hæfi barna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×