Lífið

Kiri Te Kanawa við veiðar hér

Nýsjálenska óperusöngkonan Kiri Te Kanawa er stödd í þriðju veiðiferð sinni hér á landi. Hún heldur tónleika í október og ætlar að koma nokkrum dögum fyrr og taka heppna nemendur við Söngskólann í Reykjavík í söngkennslu. Aðspurð hvers vegna hún sé við veiðar hér á landi segir Kiri að hún hafi komið að veiða í fyrra og það hafi verið dásamlegt. Því hafi hún ákveðið að koma aftur og prófa að veiða á öðrum stað. Kiri segist stunda miklar veiðar í heimalandi sínu en þetta sé í fyrsta skipti sem hún stundi alvöru fluguveiði. „Ég ólst upp við silungsveiðar með föður mínum á Nýja-Sjálandi en þetta er í fyrsta skipti sem ég veiði lax fyrir utan veiðarnar í fyrra,“ segir Kiri. Aðspurð hvernig hafi gengið segir hún veiðina hafa verið góða. Vinkona hennar hafi verið með í för og hún hafi ekkert vit á veiðunum en veiði samt allan fiskinn. Hún kasti ekki vel en þetta gangi vel hjá henni. Hún hafi sjálf veitt þrjá en alls hafi 18 laxar komið á land hingað til. Kiri fer snemma á fætur, um hálfsex-sex, og hún segir veiðidagana langa. Þau eldi sjálf ofan í sig, það sé erfitt en gaman. Svo þurfi að vigta fiskinn og undirbúa næsta dag. Þetta sé mest spennandi tími sem hún hafi átt. Hún sé útkeyrð en þetta sé mjög skemmtilegt. Aðspurð hvernig henni líki við Íslendingar segir Kiri að þeir séu yndislegir. Ísland sé eins og Nýja-Sjáland, lítil eyja út í miðju hafi. Þess vegna sé fólk svipað á þessum stöðum, mjög gestrisið. Kiri byrjaði ung að veiða með pabba sínum, bæði á stöng og með skotvopnum. Því var forvitnilegt að vita hvort hún ætlaði að sækja um skotleyfi, til dæmis til hreindýraveiða, eða láta árnar nægja. Kiri segir að henni langi ekki til að skjóta hreindýr. Henni finnist miklu meiri ögrun í því að veiða fisk.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.