Innlent

Skyrdrykkja veldur skorti á nautakjöti

Skortur er á íslensku nautakjöti og þá sérstaklega kjöti í hakk. Auka þyrfti framboð um þrjú til fjögur prósent til að mæta eftirspurninni. Leifur Þórsson, framkvæmdastjóri Ferskra kjötvara, segir að hann eigi ekki til eitt einasta kíló til að selja stórviðskiptavinum á borð við Hagkaup og Bónus. Undir þetta tekur Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands.

Leifur segir ástandið óvenjuslæmt. "Ástandið hefur verið slæmt á köflum en nú hefur keyrt um þverbak," segir hann. Nautakjötsskorturinn hefur verið viðvarandi í að minnsta kosti eitt ár og virðist einkum eiga við um Suðurland þar sem tvær kjötvinnslur eru á sama svæðinu í samkeppni við Mjólkurbú Flóamanna sem hefur slegið í gegn og náð góðum árangri í sölu á skyri og skyrdrykkjum. Búast má við að eftirspurn eftir innlendu nautakjöti tvöfaldist milli jóla og nýárs því að neytendur leita gjarnan í ferska kjötið um nýárið, en í ár verður lítið nautakjöt á markaðnum þó að innflutningur á nautalundum geti mætt eftirspurninni að mestu þar.

Innflutningur var nýlega leyfður á 35 tonnum af nautahakki en Leifur telur að það sé bara "dropi í hafið" auk þess sem sá innflutningur sé ekki enn hafinn. "Ráðuneytið vill sjá hvað þessi 35 tonn gera fyrir markaðinn. Það er enginn skilningur á því að markaðinn vantar hakkefni, kjöt til að hakka og búa til hakk, hamborgara og þess háttar," segir Leifur.

Steinþór segir að ástæðurnar fyrir skortinum séu einkum tvær. Offramboð á nautakjöti fyrir tveimur til þremur árum hafi orðið til þess að bændur drógu úr nautakjötsframleiðslu. Sá samdráttur sé að koma fram núna. Þá hafi nytin aukist verulega þannig að færri kýr þurfi til að anna eftirspurn eftir mjólk. Bændur haldi kúnum í mjólkurframleiðsu, kálfum fækki og framboðið á kýrkjöti og ung­nautakjöti hafi minnkað. Þá jaðri við að vera skortur á mjólk en góður árangur hafi náðst í sölu á skyri og skyrdrykkjum. Sigmundur Ófeigsson, framkvæmdastjóri Norðlenska, segir að framboð og eftirspurn eftir nautakjöti sé í jafnvægi hjá Norðlenska.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×