Innlent

Heimabankaþjófur játar milljónastuld

Greiðlega gekk hjá lögreglu að leysa fjögur þjófnaðarmál sem komu upp þegar maður stal ríflega tveimur milljónum úr heimabönkum.
Greiðlega gekk hjá lögreglu að leysa fjögur þjófnaðarmál sem komu upp þegar maður stal ríflega tveimur milljónum úr heimabönkum.

Tuttugu og fimm ára karlmaður hefur játað að hafa stolið úr heimabönkum einstaklinga ríflega tveimur milljónum króna. Hann hefur einnig játað að hafa tekið fjárhæðirnar út og ráðstafað þeim. Hann var leystur úr gæsluvarðhaldi á föstudag. Maðurinn var handtekinn á mánudagskvöld fyrir viku og úrskurðaður í gæsluvarðhald morguninn eftir.

Hann var grunaður um að bera ábyrgð á fjórum svikamálum. Hið fyrsta kom upp í lok sumars en það nýjasta fáeinum dögum áður en hann var handtekinn. Í síðastnefnda málinu varð ungur maður var við að 100 þúsund krónur voru horfnar af debetreikningi hans. Hann gerði viðskiptabanka sínum viðvart, sem leitaði þá til lögreglunnar í Reykjavík. Fyrri málin þrjú voru þá þegar til rannsóknar. Þær fjárhæðir sem stolið var af reikningum námu frá 100 þúsund krónum og upp í rúmlega 1,5 milljónir króna, samtals á þriðju milljón króna. Viðkomandi viðskiptabankar bættu viðskiptavinum sínum að fullu það sem maðurinn stal.

Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, staðfesti í gær að maðurinn væri laus úr gæsluvarðhaldi. "Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef dró ekki úr notkun á netbönkunum þá daga sem þetta mál var í fréttum og næstu daga á eftir," segir Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja.

"Þetta segir okkur að hefði fólk skynjað þetta öðruvísi en að um raunverulega hættu hafi verið að ræða, hefði það gerst." Guðjón segir sjálfsagt að brýna fyrir fólki að fylgjast vel með, þar með talið að uppfæra vírusvarnir í heimatölvum og verða sér úti um nýjustu uppfærslur. Hann sagði eflingu öryggisvarna í ákveðnu ferli. Leiðbeiningar hefðu verið gefnar út meðal annars á heimasíðum bankastofnana og þær hafi verið mikið lesnar. Hins vegar hafi ekki verið gerð könnun á því meðal viðskiptamanna banka og sparisjóða hvort þeir hafi aukið vírusvarnir í tölvum sínum. Spurður hvort fleiri tilkynningar hefðu borist um grun um þjófnaði úr heimabönkum í kjölfar umfjöllunar um þjófnaðarmálin sagði Guðjón svo ekki vera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×