Lífið

Konur í lykilhlutverkum

Konur í lykilhlutverkum. Stjórnarmenn Alfa deildar halda upp á áfangann. Marta Guðjónsdóttir, Sigríður Ragna Sigurðardóttir, Herdís Egilsdóttir, Þóra Kristinsdóttir og Margrét G Schram.
Konur í lykilhlutverkum. Stjórnarmenn Alfa deildar halda upp á áfangann. Marta Guðjónsdóttir, Sigríður Ragna Sigurðardóttir, Herdís Egilsdóttir, Þóra Kristinsdóttir og Margrét G Schram.

Um þessar mundir fagna Alfa-konur því að 30 ár eru liðin frá því að Delta Kappa Gamma samtökin hófu starfsemi á Íslandi. Delta Kappa Gamma eru alþjóðleg samtök sem stofn­uð voru í Austin í Texas í Bandaríkjunum árið 1929 af tólf konum. Markmið þeirra var að bæta faglega menntun sína og annarra kvenna.

Árið 1975 stofnuðu svo íslenskar konur Alfa deild sem heyrir undir samtökin í Austin. Nú starfa 35 konur í deildinni og hafa ellefu þeirra starfað frá upphafi. "Þetta er sem sagt alþjóðlegt félag kvenna í fræðslustörfum," segir Herdís Egilsdóttir, meðstjórnandi í Alfa deild.

"Og það sem er kannski sérstakt við þetta félag fram yfir önnur félög er að saman í hverri deild er reynt að hafa kennara frá öllum skólastigum, allt frá leikskóla og upp í háskóla. Konur geta þó ekki bara gengið inn því að það er valinn inn í félagið fulltrúi fyrir hvert stig og stærstu deildirnar eiga aldrei að vera stærri en svo að þær komist ekki fyrir í heimahúsi," útskýrir Herdís.

Nú eru starfandi 140 þúsund konur í Delta Kappa Gamma deildum víðs vegar um heiminn. Svo eru haldin Evrópuþing og jafnvel heimsþing þar sem kvenskörungarnir hittast. En hvernig láta þær svo til sín taka?

"Til dæmis höfum við lesið þingsályktanatillögur um menntamál og komið með athugasemdir við þau atriði sem betur mega fara á framfæri við ráðherra, þingmenn og aðra sem málið varða," segir Herdís.

"Svo höfum við skrifað nokkuð í blöðin um þessi málefni en það sem snýr að alþjóðlega starfinu, að þá veita samtökin konum styrk víðs vegar um heim til framhaldsnáms. Sá styrkur kemur ekkert síður í hlut konu sem er ekki í félaginu. Okkur þykir vænt um þennan félagsskap og samneyti við þessar konur hefur reynst hverju okkar alveg ómetanlegt."

Delta Kappa Gamma er heiti á þremur grískum stöfum sem skamm­stafa nafnið "Konur í lykilhlutverkum" sem er hið eiginlega heiti samtakanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.