Innlent

Rafmagnsviftur rjúka út

Rafmagnsviftur seljast eins og heitar lummur í sólinni. Hiti er víða yfir tuttugu stigum á landinu og nú er heitast í Húsafelli, tuttugu og fjögur stig. Til viðbótar við Húsafell er hiti yfir tuttugu stigum í Fljótshlíðinni, á Þingvöllum og í Reykjavík. Íslendingar eigi ekki að venjast þetta miklum lofthita og því hafa rafmagnsviftur selst vel síðustu daga. Hjá Byko hefur verið mikið um að fólk hafi keypt borðviftur á skrifborðið til að komast í gegnum vinnudaginn og eru þær nú uppseldar hjá Byko en eru fáanlegar hjá Elko. Þær kosta 2000-3000 krónur stykkið. Hjá Húsasmiðjunni hefur selst mest af svokölluðum kæliblásurum sem dæla lofti í gegnum vatnsbleytta síu, og ekki sakar að hafa klakavatn í græjunni. Svoleiðis græja kostar tæplega tólf þúsund krónur og hefur selst vel. Að sögn starfsmanns í raftækjadeild Húsasmiðjunnar var varan ekki sérpöntuð fyrir hitann heldur kom hún til landsins fyrir nokkrum vikum. Enn eru þó hundrað og fimmtíu stykki til á lager. Sölumönnum beggja fyrirtækja ber saman um að sala sé miklu meiri nú en áður. Óljóst er hvort framhald verður á því en veðurspá gerir ráð fyrir að það verði svalara á morgun þegar þoka kemur upp að vesturströndinni. Myndin er frá Húsafelli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×