Innlent

Djúpsprengja kom í troll togara

Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar eyddu í gær djúpsprengju sem kom í troll togarans Þórunnar Sveinsdóttur. Skipstjórinn á Þórunni Sveinsdóttur hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kl. 10 í gærmorgun og óskaði eftir aðstoð. Torkennilegur hlutur hafði komið í troll togarans og grunaði skipstjórann að um sprengju væri að ræða. Skipið var þá statt í grennd við Vestmannaeyjar. Skipstjórinn fékk strax samband við sprengjusérfræðinga Landhelgisgæslunnar sem töldu af lýsingum að dæma að hluturinn væri bresk djúpsprengja af gerðinni MK 7. Slíkar sprengjur innihalda 147 kg. af TNT sprengiefni. Sprengjusérfræðingarnir flugu með flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, til Vestmannaeyja og voru komnir þangað kl. 15:30. Togarinn var þá staddur rétt fyrir utan höfnina í Vestmannaeyjum. Við nánari athugun kom í ljós að um djúpsprengju var að ræða, sömu gerðar og talið hafði verið. Hún var án forsprengju og kveikjubúnaðar og þess vegna var talið óhætt að skipið kæmi í höfn. Sprengjan var flutt frá borði með aðstoð lögreglu og henni eytt á afviknum stað. Djúpsprengjur voru notaðar til að granda kafbátum í seinni heimsstyrjöld. Hægt var að varpa þeim frá bæði skipum og flugvélum. Í flestum tilfellum kom vatnsþrýstingur sprengingu af stað. Sprengjur af gerðinni MK 7 eru enn notaðar af sjóherjum nokkurra ríkja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×