Innlent

Nágrannar stefna sendiráðinu

Nágrannar bandaríska sendiráðsins undirbúa stefnu á hendur bandarískum stjórnvöldum um þessar mundir, en málið hefur tafist í meðförum utanríkisráðuneytisins. Árið 1995 eignaðist sendiráðið baklóð við Laufásveg 19 og meinar íbúum þar aðgang að lóðinni. Það hefur valdið íbúunum nokkrum óþægindum, meðal annars geta þeir ekki geymt ruslatunnurnar sínar bak við húsið sitt. Ragnar Hall, lögmaður íbúanna við Laufásveg 19, segir að hann hafi gefið út stefnu á hendur bandarískum stjórnvöldum í maíbyrjun og óskað eftir liðsinni utanríkisráðuneytisins við að birta þeim stefnuna. Málið hafi hins vegar dagað uppi í ráðuneytinu án nokkurra skýringa. Ragnar vonast þó til að þingfestingin dragist ekki langt fram yfir áramót. Ragnar segir það góðs viti að borgaryfirvöld séu að vakna til vitundar um málið en hingað til hafi framganga þeirra og utanríkisráðuneytisins einkennst af "snautlegum undirlægjuhætti" gagnvart bandarískum stjórnvöldum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×