Erlent

Brottflutningurinn tryggður?

Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, hefur boðið stærsta stjórnarandstöðuflokknum í Ísrael, Verkamannaflokknum, að mynda með sér þjóðstjórn. Takist það eru áætlanir Sharons um að brotthvarf Ísraelsmanna frá Gazasvæðinu taldar tryggðar. Eitt stærsta málið í deilum Palestínumanna og Ísraela eru landnemabyggðir gyðinga inni á svæðum palestínumanna. Á Gazasvæðinu búa um átta þúsund gyðingar innan um eina og hálfa milljón Palestínumanna, undir öflugri hervernd ísraelskra hersveita. Sharon hefur ekki haft stuðning meirihluta þingmanna við fyrirætlanir sýnar um að rýma landnemabyggðir gyðinga á Gazasvæðinu, og fjórum stöðum á Vesturbakkanum, og fara þaðan með hersveitirnar. Hann hefur rekið nokkra meðlimi ríkisstjórnar sinnar vegna málsins. Verkamannaflokkurinn, sem er í stjórnarandstöðu, styður hinsvegar brottflutning Ísraelsmanna frá Gaza, og hafði Sharon hótað að boða til til kosninga ef hann fengi ekki heimild hjá sínum eigin flokki, Likud-flokknum, til að mynda þjóðstjórn með Verkamannaflokknum. Í gærkvöldi samþykkti flokkurinn þetta, og strax í morgun bauð Sharon Simoni Peres, leiðtoga Verkamannaflokksins, til viðræðna um myndun nýrrar stjórnar. Ef af verður, má telja að fyrirætlanir um brotthvarf gyðinga frá Gasasvæðinu séu tryggðar. Viðræður um myndun nýrrar stjórnar munu væntanlega hefjast um helgina, en áætlanirnar fela í sér að í staðinn fyrir brottflutning gyðinga frá Gazasvæðinu verði innlimað í Ísraelsríki landtökusvæði á vesturbakka Jórdanár. Palestínumenn hafa lýst ánægju sinni með þessa þróun mála í morgun, og segjast vonast til þess að þetta muni ýta undir árangur friðarumleitanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×