Innlent

Jákvæð reynsla af reykingabanni

Frumvarp sem bannar reykingar á veitingahúsum verður lagt fram á Alþingi fyrir jól. Reynsla annarra landa af slíku reykingabanni er almennt jákvæð en þó hafa ýmsar óvæntar hliðarverkanir komið í ljós. Hvert landið á fætur öðru hefur farið þá leið að banna alfarið reykingar á opinberum vettvangi þó aðeins smáríkið Bútan hafi gengið alla leið og hreinlega bannað sölu tóbaks. Auk Íslands er verið að smíða frumvörp um málið í Bretlandi, þá gengur reykingabann í gildi í Svíþjóð á næsta ári og slíkt bann er þegar við lýði í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna, á Írland og í Noregi þar sem reykingabannið tók gildi síðasta sumar. Afleiðing þessa er að nú sitja norskir reykingamenn úti við iðju sína og það jafnt í sól og sumaryl sem um hávetur og í fimbulkulda. Enda hafa veitingahúsin aðlagast vel og bjóða upp á hitara og teppi. Bannið hefur breytt ásýnd Óslóar að því leyti að nú er algengt að sjá hópa fólks norpandi við reykingar fyrir utan veitingastaði og bari með tilheyrandi reykmengun fyrir aðra vegfarendur. Skoðanir eru skiptar um hvort þetta er rétta leiðin. Björn Jacobsen, þingmaður norska Sósíalistaflokksins, segir of snemmt að segja til um það. Bíða þurfi fram í janúar þegar frostið fer niður í 20 stig til að sjá hvort þetta virki í reynd. „Veitingabransinn sá ekki nógu vel til þess að reyklausum gæti liðið vel úti,“ segir Jacobsen.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×