Innlent

Ný Byggðastofnun?

Guðmundur Bjarnason, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir að ef staða Íbúðalánasjóðs versni verði til ný Byggðastofnun sem stjórnvöld þurfi að borga með. Hún þyrfti þá að niðurgreiða vexti í þeim landshlutum þar sem veðin væru lélegust. Guðmundur segir nauðsynlegt að hækka hámarkslánin eigi sjóðurinn að vera áfram til í núverandi mynd. Heildarlán Íbúðalánasjóðs eru um fimmhundruð milljarðar. Guðmundur Bjarnason segir að heildarútlán megi helst ekki fara mikið niður fyrir fjögur hundruð milljarða til að sjóðurinn geti haldið áfram að selja skuldabréf á jafn góðum kjörum og verið hefur. Versni kjörin hækki vextirnir og þar af leiðandi vextir þeirra lána sem Íbúðalánasjóður getur boðið viðskiptavinum sínum. Verði ekki brugðist við gæti sjóðurinn breyst í nýja Byggðastofnun. Á meðan sjóðurinnsé stór og sjálfstæður eins og nú er, þurfi hann ekki á hjálp frá hinu opinbera að halda, en það gæti hins vegar hæglega breyst. Guðmundur segir að mikilvægast sé að hækka hámarkslánin til að Íbúðalánasjóður haldi velli. Þau séu nú ellefu og hálf milljón króna en þurfi að vera um sextán milljónir, eða jafnvirði um fjögurra herbergja nýlegrar íbúðar í Reykjavík. Hann segir félagsmálaráðherra hafa sýnt vilja í þessa veru og vonast til þess að stjórnvöld muni sæyna þeirri viðleitni skilning. Guðmundur segir að sjóðurinn hafi mjög lítið svigrúm til þess að leyfa viðskiptavinum að skuldbreyta eldri lánum, enda séu á móti eldri lánum útistandandi lán hjá Íbúðalánasjóði á þessum sömu háu vöxtum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×