Innlent

Eldri konur frekar í óhöppum

Meiri hætta er á að eldri konur lendi í umferðaróhöppum er karlar á sama aldri. Þetta er ein af niðurstöðum nýrrar íslenskrar rannsóknar, sem bendir einnig til þess að almennt sé ekki munur á slysatíðni hjá kynjunum. Þjóðsagan segir að karlar séu ökuníðingar og konur mun öruggari bílstjórar. Margur hefur hrist höfuðið yfir þessu og fullyrt að konur valdi mun fleiri slysum en karlar og kunni ekki að keyra. Hvorugt fæst staðist, miðað við niðurstöður Kjartans Þórðarsonar, sem skoðað hefur niðurstöður umferðakannana tuttugu ár aftur í tímann. Með því að kanna 19117 tilfelli kom meðal annars í ljós, að yngsti aldurshópurinn er hættulegastur í umferðinni, eins og löngum hefur verið sagt. Enginn munur er á kynjunum á þeim aldri. Kjartan segir að einnig hafi komið í ljós að eldri konur komi illa út í samanburði við aðra. Þær valdi ekki endilega alltaf slysunum, en fari illa út úr þeim. Eldri konur valdi þó fleiri slysum í umferðinni heldur en þær ættu að gera miðað við hve fáar þær séu í umferðinni. Og Kjartan segir að draga megi þá ályktun að rétt væri að skoða endurmenntun ökumanna. Annars vegar til þess að halda þeim í umferðinni sem eru færir um að keyra og eins til þess að fá þá sem ekki eru hæfir til þess að hætta að keyra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×