Innlent

Reksturinn verði tryggður áfram

Stjórn Íslandsdeildar Amnesty International skorar á Alþingi að tryggja áfram rekstur Mannréttindaskrifstofu Íslands. Skrifstofan fær engin bein framlög frá ríkinu á næsta ári, en getur sótt fé í sjóð ætluðum til mannréttindamála. Formaður Mannréttindaskrifstofu telur vegið að mannréttindastarfi í landinu með því að tryggja Mannréttindaskrifstofu Íslands ekki bein fjárframlög frá ríkinu. Íslandsdeild Amnesty International hefur fjallað um málið og skorar á stjórnvöld að endurskoða ákvörðun sína. Bent er á að með stofnun mannréttindaskrifstofunnar árið 1994 hafi verið lagður grunnur að mikilvægum vettvangi til þess að samhæfa mannréttindastörf hér á landi og hún hafi margsannað gildi sitt. Í áskorun Íslandsdeildar Amnesty segir að Sameinuðu þjóðirnar hafi hvatt aðildarríki til að tryggja að í hverju landi starfi mannréttindaskrifstofur og í skýrslu Íslands til eftirlitsnefndar stofnunarinnar, um samning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, hafi þess sérstaklega verið getið að stjórnvöld hér á landi styddu starfsemi slíkrar skrifstofu, sem eins framlags ríkisins til þess að efla mannréttindi á Íslandi. Íslandsdeild Amnesty International telur að tillögur fjárlaganefndar Alþingis, sem nú liggi fyrir, feli í sér þá hættu að fjármunir til mannréttindamála almennt, nýtist illa, og dreifist á marga aðila og einstaklinga. Fjármagninu sé hins vegar best varið með því að tryggja traustan rekstur oh þannig sjálfstæði Mannréttindaskrifstofu Íslands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×