Erlent

Útför Arafats undirbúin

Undirbúningur að útför Jassers Arafats, forseta heimastjórnar Palestínu, var í fullum gangi í gær. Arafat er sagður lifa síðustu stundir sínar og er ekki gert ráð fyrir að heilsa hans batni. Ákveðið var að útför hans yrði gerð í Kaíró að boði Egypta en að Arafat yrði jarðsettur í höfuðstöðvum sínum í Ramalla. Þar unnu vinnuvélar að því að hreinsa brak af svæðinu í kringum höfuðstöðvarnar svo hægt yrði að jarðsetja hann. "Það hefur verið ákveðið að lík hans verður flutt til Kairó og að þar fari athöfnin fram. Eftir það verður flogið með líkið frá Kaíró til Ramalla," sagði Saeb Erekat, aðalsamningamaður Palestínumanna. Ástæðan fyrir því að útförin verður gerð í Kaíró er að þannig er auðveldara fyrir erlenda þjóðarleiðtoga að vera við útförina heldur en ef hún yrði gerð í Ramalla. Íslamskur klerkur kom til Frakklands til að vera við dánarbeð Arafats. Hann las upp úr Kóraninum við hlið Arafats sem var í djúpu dái.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×