Menning

Lífið eftir stúdentspróf

Þuríður Pétursdóttir lauk stúdentsprófi frá Verslunarskólanum síðastliðið vor og vissi eiginlega ekkert hvað hana langaði að læra þegar þeim áfanga var náð. "Eiginlega langaði mig að taka mér ársfrí, en hálflangaði líka að læra eitthvað. Ég vissi að minnsta kosti að ég var ekki tilbúin í háskólann alveg strax," segir Þuríður. "Ég fór því niður í Stúdentaferðir til að athuga með einhverskonar starfsþjálfun í Evrópu eða Bandaríkjunum og endaði með helling af málaskólabæklingum í höndunum. Það sem mér fannst mest spennandi var bæklingur frá EF International, en þeir eru með skóla um allan heim. Malta talaði sterkt til mín og ég ákvað að slá til í níu mánaða prógram þar, sem felst í að búa hjá fjölskyldu á staðnum og vera í skóla í nokkra tíma á dag." Þuríður segir að þetta minni sannarlega um margt á skiptinemaprógramm en sé þó ekki það sama. "Dvölinni er skipt niður í tímabil, mér skilst að fyrra tímabilið fari mest í enskunám en seinna tímabilið í fög sem maður velji á staðnum. Ég er samt ekkert búin að skoða þetta vel, ég vil láta koma mér á óvart," segir Þuríður hlæjandi og viðurkennir að hún viti sáralítið um Möltu. "Ég veit að eyjan er 354 ferkílómetrar og að þar búa tæplega 400.000 manns. Ég veit líka að höfuðborgin heitir Valeta og bærinn sem ég mun búa í heitir St. Juliens og er rétt hjá höfuðborginni. Ég fer ein því mér finnst mikilvægt að læra að treysta á sjálfa mig og læra af reynslunni. Öll reynsla er góð, hvort sem hún er skemmtileg eða leiðinleg." Þuríður ætlar líka að reyna að komast til botns í tungumáli Maltverja sem heitir maltí. "Það er einhvers konar arabíska með sambland af suður-evrópskum málum og ég vona að ég verði farin að skilja hrafl í því eftir níu mánuði. En fyrst og fremst held ég að þetta verði góður undirbúningur fyrir framtíðina, sem gæti allt eins orðið stjórnmálafræði í HÍ."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×