Innlent

Kúgaðir í fangelsum

Kynferðisglæpamenn hafa löngum verið fyrirlitnir af samföngum sínum, sem gjarnan ráðast á þá með fúkyrðum og jafnvel ofbeldi, að sögn Ara Björns Thorarensen, formanns Fangavarðafélags Íslands. Valtýr Sigurðsson, forstjóri Fangelsismálastofnunar, sendi fyrir skömmu bréf til fanga þar sem segir að tekið verði á einelti og þeir sem gerist sekir um slíkt megi búast við agaviðurlögum. Ari Björn segir eineltið helst vera í formi fúkyrða sem kölluð eru á eftir mönnum úti við og á fangelsisgöngunum, en hann viti þó um tilfelli þar sem ofbeldi hafi verið beitt. Einnig séu dæmi um að föngum sé boðið að kaupa sér vernd og peningar teknir þannig frá þeim. Valtýr sendi bréf til fanga í íslenskum fangelsum vegna ábendinga og kvartana frá föngum, aðstandendum og lögmönnum vegna eineltis og ofbeldis sem fangar sæta af öðrum föngum. Eineltið beinist mest gegn kynferðisbrotamönnum. Valtýr segir suma þeirra varla treysta sér út úr fangaklefunum og þeir nýti því ekki útivist og íþróttaaðstöðu. Því skjóti skökku við að á sama tíma og fangar beiti sér fyrir bættum aðbúnaði og geri kröfur um aukin réttindi séu fangar sem sýni samföngum sínum vanvirðingu og beiti þá jafnvel andlegu og líkamlegu ofbeldi. Hann segir stofnunina gera það sem hægt sé til að stöðva eineltið. "Það er óþolandi þegar einstaka fangar sem hafa kannski sjálfir gerst sekir um mjög alvarleg brot eru að setja sig á háan hest gagnvart tilteknum hópi fanga," segir Valtýr. Ari Björn segir fangaverði taka heils hugar undir með Valtý. Erfitt sé að eiga við einelti í fangelsum líkt og í skólum. Samstillt átak allra sem komi að málunum þurfi til að hlutirnir breytist.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×