Innlent

Slysahætta og vegaslit mun aukast

Þegar strandsiglingar leggjast alfarið af hér við land 1. desember næstkomandi mun slit á vegum, slysahætta og losun gróðurhúsalofttegunda aukast til muna. Lagt er til að ríkisstjórnin skipi nefnd til þess að gera ítarlega úttekt á þessum áhrifum og kanna hvernig bregðast megi við þeim. Umhverfisráðherra og samgönguráðherra hafa lagt fyrir ríkisstjórnina minnisblað um áhrif þess að vöruflutningar milli landshluta flytjist alfarið af sjó yfir á landflutninga. Ástæður þessarra breytinga eru meðal annars kröfur um aukinn hraða og sveigjanleika í flutningum og þróun ýmissa svæða á landsbyggðinni. Í minnisblaðinu segir að vöxtur landflutninga á kostnað strandflutninga hafi margs konar neikvæðar afleiðingar. Þannig muni losun gróðurhúsalofttegunda aukast og umferð vaxa og leiða til aukinnar slysahættu. Fleiri vöruflutningabifreiðar þýði aukið álag á vegakerfið og margfalt meira slit. Bent er á, með tilliti til losunar gróðurhúsalofttegunda, að vöruflutningar á sjó séu mun vænlegri kostur en talið er að hér við landi valdi landflutningar fjórum til sex sinnum meiri losun gróðurhúsalofttegunda en flutningar með skipum. Þetta atriði snertir því framkvæmd Kyoto-bókunarinnar, öðlist hún gildi. Ráðherrar umhverfis- og samgöngumála leggja til að nefnd verði falið að móta framtíðarstefnu stjórnvalda í þessu sambandi og að ítarleg úttekt verði gerð á þessum áhrifum, auk þess sem kannað verði hvort ástæða sé til að bregðast við þróuninni. Samgönguráðherra hefur þegar falið Vegagerðinni að kanna áhrif breytinganna á vegaflutninga. Einnig er lagt til að skoðað verði hvaða afleiðingar þróunin gæti haft á almennt umferðaröryggi og á skuldbindingar Íslands gagnvart útstreymi gróðurhúsalofttegunda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×